Ferill 311. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 478  —  311. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Björnsdóttur um vændi.


     1.      Hvernig er fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks um einkenni vændis háttað?
    Í samræmi við tillögur starfshóps frá desember 2022 fól ráðherra Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) að útbúa og miðla hagnýtum leiðbeiningum fyrir heilbrigðisstarfsfólk varðandi birtingarmyndir kynferðisofbeldis og móttöku þolenda þess. Við vinnuna skal taka tillit til einstaklinga í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna vændis. ÞÍH er nú ásamt sérfræðingum á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala Fossvogi í samstarfi við verkefnastjóra hjá Neyðarlínunni og sérfræðinga í málefnum brotaþola vændis hjá Stígamótum um samsetningu fræðsluefnis. ÞÍH er ætlað að kynna afurð verkefnisins fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Áætlað er að verkefninu ljúki fyrir árslok 2023.

     2.      Hyggst ráðherra koma á skimun fyrir einkennum vændis sem yrði sambærileg skimun fyrir einkennum heimilisofbeldis innan heilsugæslunnar?
    Skimun fyrir heimilisofbeldi fer fram innan meðgönguverndar sem er afmarkaður markhópur notenda heilbrigðisþjónustunnar. Ekki er hægt að skilgreina sambærilegan hóp til skimunar fyrir vændi og því ógerlegt að nýta sömu aðferðafræði og notuð er við skimun fyrir heimilisofbeldi.

     3.      Hvaða þjónusta stendur til boða einstaklingum sem eru eða hafa verið í vændi að því er varðar sálfræðiþjónustu, virkniúrræði, ráðgjöf og fleira?

    Ef einstaklingur greinir frá vændi þegar leitað er til heilbrigðiskerfis þá er, samkvæmt samræmdu verklagi heilbrigðisþjónustunnar vegna þolenda kynferðisofbeldis, gerð tilvísun til viðeigandi fagaðila (geðheilsuteymis eða sálfræðiþjónustu) á heilbrigðisstofnun.
    Innan ráðuneytisins er unnið að kortlagningu aðkomu heilbrigðiskerfisins á þeim atriðum sem GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins um innleiðingu Istanbúl-samningsins, bendir á í stöðuskýrslu sinni um Ísland frá nóvember 2022. Þar er m.a. horft til ábendinga nefndarinnar varðandi konur í viðkvæmri stöðu, svo sem brotaþola vændis. Rétt þykir að árétta að virkniúrræði og ráðgjöf þeim tengd er á ábyrgð félags-og vinnumarkaðsráðuneytis.